Flóttafólki er hjálpað að aðlagast og hefja nýtt líf í nýrri alhliðaþjónustu í Reykjanesbæ.
Ahlam og Khalifa flúðu átök í Írak og hafa nú hlotið hæli á Íslandi þar sem þau hófu nýtt líf ásamt þremur ungum dætrum sínum. © UNHCR/Elisabeth Haslund
Þegar Khalifa Mushib lenti á Íslandi ásamt eiginkonu sinni og þremur ungum dætrum í janúar 2021 vissu þau ekki mikið um þetta litla eyríki í miðju Atlantshafi. Fyrir utan það að landið væri öruggt, fólkið væri vingjarnlegt og veðurfar væri með kaldara móti.
Þetta var allt annar veruleiki en fjölskyldan hafði upplifað í meira en tvö og hálft ár í endalausri bið og baráttu við að ná endum saman í Grikklandi – eða þær aðstæður sem hún varð að lifa við í Írak sem fjölskyldan flúði frá fyrir nokkrum árum.
„Í Írak hafa verið átök í rúmlega 45 ár og það er ekki til hreint vatn né aðgangur að lyfjum. Það er ekkert líf þar. Við flúðum til Grikklands og vorum heppin að við þurftum einungis eina tilraun á bátnum til að komast yfir Miðjarðarhafið. Sumar fjölskyldur reyna að fara yfir allt að tíu sinnum en það tekur aðeins eina sekúndu að missa barnið þitt eða fjölskylduna þína,“ segir Khalifa.
Hins vegar voru aðstæðurnar langt frá því að vera viðunandi eftir að þau komu í land á grísku eyjunni Kos. Þar bjuggu þau ásamt þúsundum annara í yfirfullu móttökurými. Þónokkur fjöldi fjölskyldna deildu með sér hjólhýsi, málarekstur þeirra gekk hægt og það var sérstaklega erfitt að fá tíma hjá lækni rifjar Khailfa upp.
Konan hans, hún Ahlam var komin tvo mánuði á leið – en þegar hún upplifði erfiðleika á meðgöngu fékk hún ekki tíma hjá lækni og missti fóstrið. Það var þá sem Khalifa Mushib ákvað að þau hefðu ekki um annan kost að velja en leita hælis í öðru landi. Þær sögur sem hann hafði heyrt um Ísland sannfærðu hann um það að þetta fámenna ríki í norðri væri öruggt og þar lægi framtíð hans og fjölskyldunnar.
„Ég er úrskurðaður blindur og þegar þú ert blindur í Írak er ekkert fyrir þig að gera. Engin störf og kerfið hjálpar þér ekki neitt. Fólkið hérna hefur verið svo hjálpsamt. Börnin mín eru í skóla, æfa íþróttir og eiga íslenska vini,“ segir hann. „Mér finnst veðrið ekki einu sinni svo slæmt. Það getur verið ansi kalt í Írak.“
Khalifa Mushib segir frá sinni upplifun í notalegri og hlýrri stofunni í raðhúsi sínu í Reykjanesbæ – fyrsta Norðurlandaþjóðin sem tekur þátt í verkefninu #WithRefugees á vegum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Reykjanesbær hefur ásamt fjórum öðrum sveitarfélögum hafið innleiðingu nýrrar starfsáætlunar á samræmda móttöku flóttafólks sem miðar að því að hjálpa fólkinu að aðlagast samfélaginu hraðar og betur.
„Starfsemin er enn þá í þróun en þetta snýst fyrst og fremst um að hjálpa fólkinu að aðlagast og að það fái þá þjónustu sem það þarf og að henni sé fylgt eftir. Fyrsta skrefið er að veita flóttafólki öryggistilfinningu, með því að aðstoða það við að finna húsnæði og skapa fjárhagslegt öryggi,“ segir Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar og samræmdrar móttöku flóttafólks í Reykjanesbæ.
Á meðan tíðni hælisleitenda á Íslandi er tiltölulega lág miðað við önnur lönd þá tók Ísland á móti u.þ.b. 700 manns árið 2021. Fjöldinn hefur aukist undanfarið, þar af leiðandi er brýn þörf á því að þróa og bæta móttökuna, segir Ásta Kristín Guðmundsdóttir.
Flóttafólk í Reykjanesbær fær úthlutað málstjóra sem leiðbeinir þeim, upplýsir þau um réttindi sín og aðstoðar ef þau lenda í erfiðeikum og hindrunum. Þau fá stuðning við að kljást við öll þau mál sem við þurfum að kljást við dags daglega sem gætu verið krefjandi fyrir nýbúa eins og t.d. að opna bankareikning, læra á leiðarkerfi strætó, skrá börnin sín í leikskóla og skóla sem og skrá þau í íþróttaiðkun og tómstundir. Þau sækja einnig íslensku- og samfélagsfræðikennslu.
„Þetta snýst um að kenna og upplýsa fólk um hefðir, menningu, reglur og lög í okkar samfélagi á þeirra eigin tungumáli. En einnig er mikilvægt að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og aðstoða hann á einstaklingsmiðuðum forsendum,“ leggur Ásta Kristín Guðmundsdóttir áherslu á.
Að styrkja innleiðingu þeirra í samfélag sem tekur vel á móti þeim – og þó að upplifun flestra hafi verið jákvæð er alltaf hægt að gera betur. Áætlanir eru hafnar til að hrinda í framkvæmd fleiri tækifærum fyrir flóttafólk og nærsamfélagið að mætast á miðri leið, eiga samskipti sín á milli og taka þátt í ýmis konar iðkun saman.
„Sumir íbúar eru ekki ánægðir með að flóttafólk sé að koma til Íslands, en við þurfum að breyta þessum hugsunarhætti. Flóttafólk er upp til hópa gott fólk sem vill verða hluti af samfélaginu okkar. Við þurfum að taka vel á móti því þar sem það auðgar samfélagið okkar,“ segir Ásta Kristín Guðmundsdóttir.
Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna á Íslandi hefur nýverið hafið samstarf með Fjölmenningarsetri til að styðja við aðlögun fólksins að samfélaginu í sveitarfélögunum með öll þau hæfnisviðmið sem þarf til að styðja við heildrænar samþættingaraðgerðir.
„Aðlögun krefst samvinnu. Flóttafólkið þarf að leggja sig fram og taka þátt í nýja samfélaginu sínu, en þau þurfa einnig að upplifa að þau séu í samfélagi sem tekur vel á móti þeim sem og sterkum verkferlum og síðast en ekki síst upplifa stuðning frá nærsamfélaginu,“ segir Karolis Zibas, fulltrúi frá Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum og löndunum á Balkanskaga. „Það er traustvekjandi að fylgjast með vinnunni sem á sér stað í Reykjanesbæ, sem mun vonandi verða hvatning fyrir önnur sveitafélög að þróa með sér sambærilega verkferla.“
Stuðningurinn og traustið sem Khalifa Mushib hefur upplifað með sínum málstjóra og teyminu öllu hefur verið gulls ígildi. Hann og fjölskylda hans hefur á innan við ári náð að umbreyta lífi sínu til hins betra. Hann ásamt dóttur sinni stundar nú sundlaugarnar af miklu kappi eins og hinn dæmigerði Íslendingur.
„Ég mun aldrei gleyma þeim raunum sem við höfum upplifað á undanförnum fjórum árum, en þá sá ég enga framtíð fyrir börnin mín og konuna mína,“ segir Khalifa. „Núna er allt breytt. Þetta er heimili mitt núna. Þetta er landið mitt.“
Deila á Facebook Deila á Twitter