UNHCR, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, hvetur þjóðarleiðtoga til að leggja meira á sig til að stuðla að friði, stöðugleika og samstarfi svo hægt sé að stöðva og snúa við þeirri þróun sem sést hefur undanfarinn áratug, þar sem nauðungarflutningar hafa aukist vegna ofbeldis og ofsókna.
Samkvæmt nýjustu skýrslu Flóttamannastofnunarinnar um þróun á heimsvísu jókst fjöldi einstaklinga sem flúði stríð, ofbeldi, ofsóknir og mannréttindabrot í næstum 82,4 miljónir árið 2020, þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Þetta er fjórum prósentum meira en í lok árs 2019, en þá var fjöldinn 79,5 milljónir sem var nýtt met.
Í skýrslunni kemur fram að við lok ársins 2020 voru 20,7 milljónir flóttamanna á vegum Flóttamannastofnunarinnar, 5,7 milljónir palestínskra flóttamanna og 3,9 milljónir Venesúelabúa á vergangi. Einnig voru 48 milljónir einstaklinga vegalausir innan eigin lands. Að auki voru 4,1 milljón hælisleitendur. Þessar tölur sýna að þrátt fyrir heimsfaraldurinn og ákall um vopnahlé í heiminum halda átök áfram að hrekja fólk af heimilum sínum.
„Að baki þessum tölum standa jafnmargir einstaklingar sem hafa hrakist af heimilum sínum og eiga sögur um nauðungarflutninga, eignarnám og þjáningar. Þetta fólk á skilið að við veitum því umhyggju og stuðning, ekki eingöngu með mannúðaraðstoð heldur einnig með því að finna lausn á aðstæðum þeirra.”
„Þó að samningurinn um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 og alþjóðleg samþykkt um málefni flóttamanna veiti lagalega umgjörð og verkfæri til að bregðast við nauðungarflutningum þarf aukinn pólitískan vilja til að finna lausn á átökum og ofsóknum sem eru ástæðan fyrir því að fólkið er á flótta,“ sagði Filippo Grandi, Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
Stúlkur og drengir yngri en 18 ára eru 42 prósent vegalausra einstaklinga. Þau eru í mjög viðkvæmri stöðu, sér í lagi þegar neyðarástand stendur yfir árum saman. Nýlega áætlaði Flóttamannastofnunin að næstum því ein milljón barna fæddist sem flóttamenn á milli 2018 og 2020. Mörg þeirra verða á flótta næstu ár.
„Sú skelfilega hugmynd að svo mörg börn fæðist sem flóttafólk ætti að vera nóg til að stuðla að fleiri aðgerðum til að koma í veg fyrir og stöðva átök og ofbeldi,“ sagði Grandi.
Skýrslan tilgreinir einnig að á hápunkti faraldursins árið 2020 lokuðu fleiri en 160 lönd landamærum sínum og þar af voru 99 sem gerðu engar undantekningar fyrir fólk sem leitaði verndar. Með bættu verklagi á borð við heilsufarsrannsóknir við landamæri, heilsufarsvottorð eða tímabundna sóttkví við komu, einfaldara skráningarferli og fjarviðtöl, hafa þó sífellt fleiri lönd fundið leiðir til að tryggja að fólk geti sótt um hæli þó gætt sé að útbreiðslu faraldursins.
Á meðan margir héldu áfram að flýja yfir landamæri voru milljónir í viðbót vegalausir innan eigin landa. Fjöldi vegalausra einstaklinga í eigin landi jókst um meira en 2,3 milljónir, að mestu leyti vegna neyðarástands í Eþíópíu, Súdan, Sahel- löndum, Mósambik, Jemen, Afganistan og Kólumbíu.
Á árinu 2020 sneru 3,2 milljónir vegalausra einstaklinga í eigin landi og aðeins 251.000 flóttamenn aftur til heimila sinna, en þetta er 40 prósentum og 21 prósenti minna en árið 2019. Að auki hlutu 33.800 flóttamenn ríkisborgararétt í hælislöndum sínum. Endurbúseta flóttafólks minnkaði mikið, aðeins 34.400 flóttamenn fengu endurbúsetu á síðasta ári en þeir hafa ekki verið svo fáir í 20 ár. Þetta var vegna færri endurbúsetuúrræða og Covid-19.
„Lausnir krefjast þess að leiðtogar heimsins og áhrifafólk leggi ágreining sinn til hliðar og hætti að nálgast stjórnmál með eigin hag fyrir brjósti, en einbeiti sér þess í stað að því að koma í veg fyrir og leysa átök og tryggja að borin sé virðing fyrir mannréttindum,“ sagði Grandi.
LOKIÐ
Skýrsla UNHCR um þróun á heimsvísu 2020 – helstu tölur:
Deila á Facebook Deila á Twitter