Nú þegar tugir milljóna einstaklinga glíma við afleiðingar stríðs, átaka og ofsókna, verður hnattrænn umræðuvettvangur um málefni flóttafólks tækifæri fyrir lönd til að meta núverandi stöðu og efla viðbragðsaðgerðir á heimsvísu. Hann er til kominn í kjölfar nýs sáttmála um málefni flóttamanna sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember síðastliðnum og er hluti af innleiðingu hans.
Ásamt stofnuninni verður Sviss gestgjafi viðburðarins, sem verður á ráðherrastigi, en einnig er boðað til hans í nafni Tyrklands, Þýskalands, Eþíópíu og Kostaríka. Verið er að leita til fleiri landa um aðkomu að viðburðinum og verður tilkynnt um það síðar. Búist er við því að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sæki viðburðinn.
Sáttmáli um málefni flóttafólks, í samræmi við meginregluna um sanngjarnt álag og deilingu ábyrgðar, leitast við að bæta viðbragðsaðgerðir vegna málefna flóttafólks á heimsvísu með því að veita löndum og samfélögum sem taka á móti flóttafólki aukinn stuðning á sama tíma og flóttafólki eru veitt úrræði til að verða meira sjálfbjarga. Hann miðar einnig að því að fjölga stöðum sem flóttafólk í viðkvæmri stöðu getur sest að á og öðrum lagalegum leiðum til að komast til öruggra þriðju landa, og bæta aðstæður í upprunalöndum flóttafólksins.
Hnattræni umræðuvettvangurinn um málefni flóttafólks er einstakt tækifæri fyrir ríki og aðra til að koma saman og finna áræðnar, nýjar leiðir til að minnka álag á móttökulöndin, efla sjálfstæði flóttafólks og leita lausna.
Umræðuvettvangurinn mun leiða saman stjórnvöld, alþjóðleg samtök, staðaryfirvöld, félagasamtök, einkageirann, íbúa móttökusamfélaga og flóttafólkið sjálft. Búist er við því að nýjar hugmyndir og tillögur til að styðja við þessi markmið komi fram á meðan umræðuvettvangurinn fer fram og að honum loknum.
Sáttmálinn um málefni flóttafólks skapar grunn fyrirmóttökulönd og -samfélög til að fá stuðning sem kemur á réttum tíma, er fyrirsjáanlegur og sjálfbær. Hann gerir móttökulöndum kleift að nýta sér aðra möguleika í þróunarsamstarfi til viðbótar við, og ásamt, yfirstandandi mannúðaraðstoð. Þetta tryggir einnig að megin áherslan er á lausnirnar strax frá upphafi.
„Flóttamannavandi sendir bylgjur áhrifa yfir heilu svæðin og út fyrir þau. Það er ekki hægt að standa einn frammi fyrir áskorunum sem fylgja því að einstaklingar séu á vergangi, slíkt krefst sameiginlegrar sýnar og metnaðar hjá öllum löndum ásamt raunverulegum, áþreifanlegum aðgerðum. Þetta er markmið sáttmálans um málefni flóttafólks og þetta er það sem við reynum að vinna að á hnattræna umræðuvettvanginum um málefni flóttafólks,“ sagði flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi.
Vettvangurinn veitir ríkjum og öðrum aðilum einnig tækifæri til þess að kynna góðar starfsvenjur, bæði í tengslum við tiltekin flóttamannavandamál og á heimsvísu. Þessi reynsla sýnir hvernig umfangsmiklar viðbragðsaðgerðir eru nú þegar að breyta lífi flóttafólks og móttökusamfélaga víða um heim. Hún er einnig nauðsynleg til að veita alþjóðasamfélaginu innblástur til þess að þróa áhrifaríkar leiðir og skila drifkrafti sáttmálans áfram til framtíðar.
Á fyrsta hnattræna umræðuvettvanginum um málefni flóttafólks verður einblínt á sex þætti: úrræði vegna álags og deilingu ábyrgðar, menntun, störf og lífsviðurværi, orku og innviði, lausnir og getu til verndar.
Deila á Facebook Deila á Twitter