NEW YORK – Flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi, minnti í dag alþjóðlega leiðtoga í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á að þeir gegna lykilhlutverki í því að bregðast við neyðarástandinu sem ríkir vegna vegalausra einstaklinga, nú þegar hatursorðræða gegn flótta- og farandfólki færist sífellt í aukana.
Í ræðu hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York benti Grandi á leið sem hægt væri að fara til að takast á við hættuástand víða um heim.
„Að mínu mati er ekki rétt að tala um þetta sem neyðarástand á heimsvísu sem ekki er hægt að takast á við,“ sagði hann. „Með pólitískum vilja, og þið hér eruð ein öflugasta birtingarmynd hans, [og] með því að bregðast við í auknum mæli eins og kveðið er á um í alþjóðasamningi um flóttafólk sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember, er mögulegt og nauðsynlegt að bregðast við þessu neyðarástandi. Þar eruð þið í öryggisráðinu í lykilhlutverki.“
Meira en 68,5 milljónir einstaklinga um allan heim hafa neyðst til að flýja heimili sín. Þar á meðal eru um 25,4 milljónir flóttamanna og meira en helmingur þeirra er yngri en 18 ára. Mikill meirihluti flóttafólks dvelur í þróunarlöndunum.
„85 prósent af flóttafólki í heiminum er í fátækum löndum eða meðaltekjulöndum. Það er þar sem neyðarástandið ríkir“.
Flóttamannastjóri SÞ lagði fram þrjár beiðnir til meðlima öryggisráðsins. Í fyrsta lagi hvatti hann öryggisráðið til að vinna saman að því að takast á við ófrið og skort á öryggi, sem er undirliggjandi orsök neyðarástandsins.
„Af næstum því 70 miljónum einstaklinga sem eru vegalausir eða flóttafólk eru flestir að flýja vopnuð átök,“ benti hann á. „Ef komið væri í veg fyrir slík átök, eða leyst úr þeim, myndi það draga að miklu leyti úr fjölda flóttafólks. Engu að síður virðist friðargæsla unnin með ómarkvissum hætti sem nægir ekki til að byggja upp frið.“
Sem dæmi minntist hann á aukningu ofbeldis í Líbýu, þar sem allir almennir borgarar eru í hættu, og að sérstaklega þyrfti að huga að flótta- og farandfólki sem er í fast í fangabúðum á átakasvæðum.
Grandi greindi síðar frá því að í dag hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tekist að flytja fleiri en 150 einstaklinga úr fangabúðum í Ain Zara í suðurhluta Trípólí í öruggt skjól söfnunar- og brottfararstöðvar Flóttamannastofnunarinnar.
Grandi óskaði einnig eftir því að aðildarríkin veittu móttökulöndum aukinn stuðning. „85 prósent af flóttafólki í heiminum er í fátækum löndum eða meðaltekjulöndum. Það er þar sem neyðarástandið ríkir. Við verðum að styðja betur við þau lönd,“ sagði hann. „Við getum ekki tekið gestrisni þeirra sem sjálfsögðum hlut.“
Flóttamannastjórinn talaði um hina framúrskarandi samstöðu í Rómönsku Ameríku í kjölfar þess að 3,4 milljónir Venesúelabúa fluttust til 15 landa á svæðinu, þar á meðal Kólumbíu, Perú, Ekvador og Brasilíu.
„Úrræði okkar vegna neyðarástands í mannúðarmálum á því svæði eru á meðal þeirra sem hafa minnst fjármagn á heimsvísu,“ sagði hann. „Ef við styðjum ekki við [þau lönd] setjum við stjórnvöld þeirra í erfiða stöðu.“
„En það er jafnframt réttur fólks að velja að snúa ekki til baka.“
Hann bætti við að alþjóðasamningur um flóttafólk, nýr alþjóðlegur rammi sem aðildarríkin samþykktu í desember síðastliðnum, tryggi sameiginlega ábyrgð á því að styðja við einstaklinga sem þurfa að flýja átök og ofsóknir, sem og samfélögin sem taka við þeim.
Grandi hvatti meðlimi ráðsins einnig til að vinna saman að því að fjarlægja hindranir sem koma í veg fyrir að einstaklingar geti sjálfviljugir snúið aftur til heimalanda sinna með öryggi og mannlegri reisn.
„Við rekumst sífellt oftar á áskoranir vegna aðstæðna þar sem friður er ekki alveg kominn á,“ sagði hann. „[En það] leiðir mjög oft til þess að þrýst er á flóttafólk að snúa aftur heim við aðstæður sem eru ekki eins og best væri á kosið.“
„Við teljum að það sé réttur fólks að snúa til baka,“ sagði Grandi. „En það er jafnframt réttur fólks að velja að snúa ekki til baka.“
Hann vísaði í að næstum sex milljónir sýrlenskra flóttamanna vilja snúa aftur heim, en benti á að margir hiki við það vegna áhyggja af húsnæði, atvinnu og öryggi, sem og vandamála vegna eigna og við að útvega tilskilin gögn.
„Við þurfum að tryggja aðgengi starfsfólks Flóttamannastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna að þeim svæðum sem fólk snýr aftur á til að veita þeim stuðninginn og öryggið sem það þarf til að taka þessa erfiðu ákvörðun,“ bætti Grandi við.
Grandi ræddi einnig um Myanmar, sem ekki verður hægt að snúa aftur til nema ákveðin skilyrði um öryggi og mannlega reisn verði uppfyllt, sérstaklega í ljósi vaxandi óöryggis í norður Rakhine-héraði.
Meðlimir öryggisráðsins tóku undir áhyggjur Grandi varðandi mikinn fjölda vegalausra einstaklinga og ítrekuðu ákvörðun sína um að styðja við þau samfélög sem það hefur áhrif á. Þeir áttuðu sig á tengslum átaka og fólksflutninga og hversu mikilvægt það væri að vinna markvisst að því að vinna úr grundvallarorsökum átaka.
Fjöldi aðildarríkja lýsti yfir von um að alþjóðasamningurinn um flóttafólk myndi hvetja til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu til að bregðast við landflótta og stuðla að þátttöku nýrra aðila úr þróunar- og einkageiranum. Margir tóku einnig undir orð Grandi um rétt flóttafólks til að snúa aftur til síns heimalands sjálfviljugt, upplýst og með mannlegri reisn.
Deila á Facebook Deila á Twitter