Hvers vegna flýr flóttafólk heimaland sitt? Hvers vegna endar flóttafólk fjarri heimalandi sínu þegar það leitar öryggis? Og hvað er það mikilvægasta sem þú myndir taka með þér, ef þú neyddist til að flýja heimili þitt vegna stríðs, ofbeldis eða ofsókna?
Í dag þurfa komandi kynslóðir að skilja og umfaðma heiminn með öllum sínum margbreytileika og áskorunum. Til þess að koma málefnum flóttafólks inn í skólastofuna á yfirvegaðan hátt – án aðgreiningar, hafa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hleypt af stokkunum yfirgripsmiklu kennsluefni á íslensku um þvingaða fólksflutninga á heimsvísu.
Markmiðið er að veita skólum og kennurum á Íslandi verkfæri, leiðbeiningar og innblástur til að fræða börn og ungmenni á Íslandi um fólk sem neyðist til að flýja heimili sín. Námsefnið mun gefa þeim sterkan grunn til þess að skilja og takast á við mikilvægar spurningar sem sumar hverjar eru í brennidepli í pólitískri og opinberri umræðu og geta jafnvel átt það til að stuðla að sundrung og fordómum gagnvart innflytjendum og flóttafólki.
Efnið býður ekki aðeins upp á lykilstaðreyndir og útskýringar á þvinguðum fólksflutningum heldur varpar það einnig ljósi á persónulegar sögur fólks, örlög þeirra og afleiðingar flóttans. Slíkt stuðlar að skilningi á þeim vanda sem steðjar að þeim hópi fólks sem neyðist til að flýja heimili sín. Þessi hópur fer því miður ört vaxandi ár frá ári en í dag eru um 110 milljónir manna á flótta um heim allan.
„Málefni flóttafólks eru til stöðugrar umræðu, í fréttum, á samfélagsmiðlum og við matarborðið. Því miður eru þessi mál umlukin mörgum ranghugmyndum og misskilningi. Börnin okkar erfa flókinn heim og því skuldum við þeim að tryggja að þau hafi réttar staðreyndir, tölur og þekkingu til að hjálpa þeim að skilja ástand og stöðu flóttamála í heiminum. Við erum afar ánægð með að geta komið þessu efni á framfæri nú í íslensku samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi“ segir Annika Sandlund, fulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.
„Við höfum heyrt frá kennurum á Íslandi að það sé veruleg vöntun á námsefni sem þessu og við erum mjög ánægð með að geta hjálpað. Vaxandi fjöldi fólks á flótta á heimsvísu er eitthvað sem við sjáum bersýnilega í íslensku samfélagi, svo að slíkt efni hefði ekki getað komið á mikilvægari tíma. Það hefur verið frábært að starfa með Flóttamannastofnun SÞ í þessu ferli og við erum ánægð að geta gefið það loksins út núna þegar skólar hefjast að nýju“, segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Íslenska efnið er aðgengilegt á netinu og er ókeypis. Það tekur mið af mismunandi aldurshópum og býður upp á teiknimyndir, stutt myndbönd og tillögur að umræðu í kennslustofunni, hópavinnu og verkefni, en felur einnig í sér markvissa handbók fyrir kennara ásamt kennsluáætlunum. Námsefnið hefur verið þróað af Flóttamannastofnun SÞ og hefur þegar verið þýtt á nokkur önnur tungumál. Íslenska útgáfan hefur verið þýdd og sniðin af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Efnið má nálgast hér.
Deila á Facebook Deila á Twitter