Stuðningsáætlanir á samfélagsstigi

Aðlögun er best í sameiningu

Markmiðið með stuðningsáætlunum á samfélagsstigi er að styðja við móttöku og aðlögun flóttafólks. Borgarar og nærsamfélagið taka þátt í að veita nýkomnu flóttafólki fjárhagslega, sálræna og hagnýta aðstoð. Þannig bæta áætlanirnar við móttöku- og aðlögunarstarf ríkisstjórnarinnar og eru leið til að þróa jákvæð og mikilvæg samskipti milli flóttafólks og móttökusamfélagsins.

Hugmyndin er einnig leið til að styðja við endurbúsetu með hætti sem eflir móttöku og aðlögun flóttafólks á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Með tímanum gæti þetta hugsanlega stuðlað að auknum flóttamannakvóta.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna mælir almennt með fleiri stuðningsáætlunum á samfélagsgrundvelli og vinnur að því í samvinnu við almenning og ríkisstjórnir landa á borð við Norðurlöndin.

Hvað er samfélagsstuðningur?

Lýsingin tekur til mismunandi gerða af samfélagslegum og einkareknum stuðningsáætlunum sem gera einstaklingum, hópum einstaklinga eða stofnunum kleift að starfa saman til að veita fjárhagslegan, sálrænan og hagnýtan stuðning við móttöku og aðlögun flóttafólks sem flyst til heimalands þeirra.

Einstaklingar eða samfélag geta myndað hóp „styrktaraðila“ eða móttökuaðila/tengiliða sem skuldbinda sig til að veita sameiginlegan stuðning við t.d. flóttafólk sem hefur hlotið varanlega búsetu með því að aðstoða það við að hefja líf í nýju landi, aðlagast nýrri menningu og hefðum, þróa tungumálakunnáttu sína, og aðstoða það við hagnýt atriði, veita aðgang að tengslaneti til að fá aðgang að atvinnu, húsnæði o.s.frv. Sem hópur taka þessir aðilar á sig tímabundna skuldbindingu með sameiginlegum hlutverkum og ábyrgð til að nýta persónulega reynslu, úrræði og tengiliði í því skyni að styðja við einn eða fleiri flóttamenn eða flóttafjölskyldur.

Stuðningsáætlanir á samfélagsstigi gera borgurum og íbúum kleift að taka beinan þátt í verndaraðgerðum stjórnvalda fyrir flóttafólk og leggja sitt af mörkum til að styðja við áætlanir um flutning flóttamanna. Með tímanum gæti þetta hugsanlega stuðlað að jákvæðri þróun og auknum flóttamannakvóta. Hins vegar er engin einhlít nálgun þegar kemur að samfélagsstuðningi og mismunandi líkön geta átt við í hverju tilviki fyrir sig.

Áætlanir um stuðning innan samfélagsins hafa borið ríkan árangur í Kanada áratugum saman, enda hafa meira en 300.000 flóttamenn notið stuðnings einkaaðila við komuna til landsins á meðan flestar aðrar áætlanir hafa verið þróaðar tiltölulega nýlega til að bregðast við neyðarástandinu í Sýrlandi og til að efna skuldbindingar samkvæmt alþjóðlega sáttmála Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttafólks. Eins og er hafa mörg lönd víðs vegar um Evrópu prófað eða jafnvel komið á fót stuðningsáætlunum á samfélagsstigi, þar á meðal Bretland, Spánn, Þýskaland og Norðurlönd/Finnland og Svíþjóð.

 

Hvers vegna stuðningur á samfélagsstigi?

Stuðningsáætlanir á samfélagsstigi geta verið afar mikilvæg viðbót við móttöku- og aðlögunarstarf. Áætlanir geta byggt á þeim úrræðum sem þegar eru til staðar innan borgarasamfélagsins til að veita markvissan stuðning til lengri tíma frá samfélaginu og almennum borgurum en ríkið og önnur yfirvöld bera þó áfram endanlega ábyrgð á móttöku- og aðlögunarstarfi.

Þannig er hægt að líta á stuðning á samfélagsstigi sem:

  • Skref í átt að því að byggja upp sjálfbærar áætlanir til að styðja við endurbúsetu og gefa fleiri flóttamönnum aðgang að vernd og langtímalausnum;
  • Verkfæri til að greiða fyrir fljótvirkari og betri aðlögun með þátttöku almennra borgara;
  • Verkfæri til að auka stuðning almennings við flóttafólk og stuðla að félagslegri samheldni;
  • Leið til að nýta bolmagn og úrræði til að auka skilvirkni endurbúsetu og aðlögun flóttafólks með því að deila ábyrgð á milli stjórnvalda, borgaralegs samfélags og einstaklinga í fyrirfram ákveðinn tíma.
  • Aðlögun er ekki eitthvað sem hægt er að læra í bók heldur kallar hún eftir persónulegum samskiptum og fundi fólks við raunverulegar aðstæður. Slík persónuleg tengsl geta raungerst í stuðningsáætlunum á samfélagsstigi þar sem nýkomið flóttafólk fær aðgang að tengslaneti, sem er lykilatriði í atvinnu- og húsnæðisleit og félagslegri aðlögun.

 

Stuðningur á samfélagsstigi á Norðurlöndum

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ásamt ýmsum samstarfsaðilum vinnur að því að kanna möguleika á að innleiða og prófa stuðningsáætlun á samfélagsstigi sem tengist flóttamannaáætlunum viðkomandi landa í öllum fimm Norðurlöndunum.

Hingað til hafa hagkvæmniathuganir verið gerðar í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, og innan skamms í Noregi, og niðurstaðan er almennt að möguleiki sé á líkani byggðu á samfélagsstuðningi, að teknu tilliti til sérstöðu Norðurlandanna og áhuga meðal aðila í borgaralegu samfélagi, sveitarfélaga og ríkisstjórna á því að þróa slíka áætlun. Rannsóknirnar staðfesta einnig að stuðningur á samfélagsstigi er lagalegur möguleiki á Norðurlöndum sem verkfæri til að nota við móttöku og stuðning við flóttafólk á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Frekari upplýsingar um stuðningsáætlanir á samfélagsstigi má fá frá samstarfsaðila Flóttamannastofnunarinnar: Alþjóðlega stuðningsátakinu fyrir flóttafólk.

„Þetta er líklega eitt af því besta sem ég hef nokkurn tíma gert.“

Svo segir Nola Leonard sem tók fyrstu skrefin til að hrinda af stað stuðningsáætlun á samfélagsstigi fyrir flóttafólk í smábænum Dunshaughlin fyrir norðan Dyflinni á Írlandi.

Í desember 2018 kom fyrsta flóttamannafjölskyldan, Fakir-fjölskyldan frá Sýrlandi, frá Líbanon til þessa írska smábæjar. Á meðal þeirra sem tóku á móti þeim þar voru Nola og margir aðrir heimamenn sem tóku sig saman til að hjálpa fjölskyldunni að koma sér fyrir og venjast nýja lífinu.

Tilraunaverkefnið í Dunshaughlin leiddi síðar til þess að írsk stjórnvöld innleiddu stuðningsáætlun á samfélagsstigi.

Lesið söguna hér.

Skýrslur og aðrar heimildir

Alþjóðlega stuðningsátakið fyrir flóttafólk (GRSI): Stuðningur við flóttafólk á samfélagsstigi Handbók og skipulagningarverkfæri