Átaksverkefnið „Student Refugees“ veitir flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi aðstoð og leiðsögn við að sigrast á hindrunum sem mæta þeim innan menntakerfisins.
Þegar Sayed Khanoghli flúði Afganistan á unglingsaldri – eftir að hafa upplifað hótanir, séð lík á götum úti og misst nokkra fjölskyldumeðlimi – hafði hann aldrei heyrt um landið sem liggur í miðju Norður-Atlantshafi. Hann dvaldi í eitt ár í Grikklandi og þar hitti hann íslenska sjálfboðaliða sem fengu hann til að íhuga Ísland sem mögulegt framtíðarheimili.
„Ég kem frá litlu þorpi þar sem við bjuggum í nánum tengslum við náttúruna svo ég tengdi sterkt við allt sem þau sögðu mér um Ísland. Lítið samfélag sem býr í nágrenni við villta náttúruna. Samkvæmt lýsingunum fann ég að þetta gæti orðið mitt annað heimili“, segir Sayed sem er nú orðinn tvítugur og kom til Íslands árið 2018 með stöðu flóttamanns.
Í farteskinu hafði hann minningar um flóttann frá heimalandinu einsamall, um erfitt og hættulegt ferðalagið og um gríðarlega erfiðleika í Grikklandi sem hann varð vitni af. Hann bjó yfir enskukunnáttu og vann sem túlkur í sjálfboðastarfi fyrir kvenréttindasamtök.
„Ég heyrði hræðilegar sögur af barnshafandi konum og mæðrum með nýfædd börn sem mættu ótal hindrunum og glímdu við geðræn vandamál. Ástandið í Grikklandi var skelfilegt og allar götur síðan hef ég barist fyrir mannréttindum“.
Sayed á sér þó einnig drauma og markmið. Hann langaði að fara aftur í skóla og afla sér menntunar en það var hægara sagt en gert. Hann reyndi að sækja um menntaskólavist á Íslandi en fékk synjun vegna þess að hann gat ekki útvegað skólavottorð frá Afganistan. Það hafði glatast þegar gamli skólinn hans brann til kaldra kola.
Student Refugees var lausnin sem hentaði Sayed. Þetta er sjálfboðaliðaverkefni á Íslandi sem nemendur hafa umsjón með. Markmiðið er að aðstoða og styðja við flóttafólk og hælisleitendur sem vilja mennta sig og þurfa ef til vill á hjálp að halda.
Student Refugees býður upp á leiðsögn og ráðgjöf og boðið er upp á umsóknarkaffihús þar sem fólk getur fengið aðstoð við háskólaumsóknir. Einnig eru veittar almennar upplýsingar um íslenska menntakerfið til að hjálpa ungu flóttafólki að skilja reglur og inntökuskilyrði.
Sjálfboðaliði hjálpaði Sayed að skrifa bréf til menntaskólans þar sem staða hans var útskýrð. Hann fékk í kjölfarið inngöngu í skólann og gat haldið áfram að mennta sig. Þegar skólum var svo lokað á Íslandi vegna COVID-19 hjálpuðu sjálfboðaliðarnir Sayed að finna leiðbeinanda sem gat hjálpað honum svo hann drægist ekki aftur úr í náminu.
Að baki íslenska framtakinu stendur Landssamband íslenskra stúdenta, LÍS, en meðlimir þess fengu innblástur eftir að hafa hitt meðlimi Student Refugees í Danmörku. Árið 2019 var verkefnið sett á fót á Íslandi og samkvæmt Derek Allen, formanni LÍS, hefur ekki reynst erfitt að finna stuðningsaðila og sjálfboðaliða meðal íslenskra nemenda.
„Við í LÍS berjumst fyrir jöfnum tækifærum allra nemenda og við vitum að flóttafólk á Íslandi mætir ýmsum hindrunum þegar kemur að menntun. Jafnvel þótt flóttafólk uppfylli allar kröfur getur verið erfitt að fóta sig innan kerfisins“, segir Derek.
„Á Íslandi er gagnlegt að hafa sambönd og um það snýst Student Refugees-verkefnið“.
Karolis Zibas, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum og löndum Balkanskaga, hefur lofað framtaksverkefnið:
„Aðgangur að menntun er ein grunnforsenda þess að flóttafólk geti tekið framtíð sína í eigin hendur. Student Refugees sér ekki aðeins um að útvega ungu flóttafólki á Íslandi nauðsynlega aðstoð heldur styrkir verkefnið einnig tengsl þeirra við samfélagið“.
Svolítið hlé hefur verið á starfsemi Student Refugees vegna COVID-19, eins og gefur að skilja. Samfélagið hefur verið í sambandi á Facebook og í gegnum tölvupóst en nú á vordögum gæti Student Refugees farið að bjóða upp á opin umsóknarkaffihús á ný til að koma á tengslum flóttafólks og sjálfboðaliða.
Að sögn Guðbjargar Erlu Hallgrímsdóttur, alþjóðafulltrúa hjá LÍS og fulltrúa Student Refugees, hefur tekist að styðja við um 50 hælisleitendur og flóttamenn á Íslandi í gegnum framtaksverkefnið. Þau aðstoða einnig aðra sem hafa samband fyrir hönd flóttafólks sem á ef til vill í vandræðum vegna glataðra skjala eða varðandi spurningar um hvernig kerfið virkar.
Í augnablikinu er unnið að því að gera verkefnið sjálfstæðara og síður háð LÍS sem skiptir um stjórn á hverju ári. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi stuðning við ungt flóttafólk á Íslandi.
„Við viljum að fólk mennti sig. Það auðveldar þeim að verða hluti af samfélaginu og nýta hæfileika sína til fulls“, segir Erla.
Afganski flóttamaðurinn Sayed Khanoghli stefnir á útskrift úr menntaskóla sumarið 2023 og í framhaldinu vonast hann til að hefja háskólanám og byggja upp framtíð á Íslandi.
„Það er ekki auðvelt að yfirgefa heimaland sitt þegar öryggi manns er ógnað og sumir láta mér líða eins og ég eigi ekki heima hér, en mig langar virkilega að aðlagast samfélaginu. Ég tala íslenskuna ekki að alveg reiprennandi ennþá en það er allt að koma og þegar ég útskrifast opnast mörg tækifæri“, segir Sayed sem er einnig formaður ungliðahreyfingar Amnesty og vinnur hlutastarf til að afla tekna.
„Ég vona að ég geti orðið ríkisborgari þegar fram líða stundir. Ég er mjög hrifinn af landinu og á marga vini hér“.
Deila á Facebook Deila á Twitter