Í dag eru liðin 70 ár frá samþykkt samningsins um réttarstöðu flóttamanna frá 1951, en það er mikilvægur alþjóðasamningur. Samkvæmt UNHCR, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að endurvekja þær hugsjónir og grundvallaratriði sem liggja að baki hans.
„Samningurinn heldur áfram að vernda réttindi flóttafólks um allan heim,“ segir Filippo Grandi, Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
„Samningurinn hefur bjargað lífi margra milljóna einstaklinga. Nú eru sjötíu ár síðan hann var saminn og það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi vörð um hann.”
Hann lýsti yfir áhyggjum af nýlegum tilraunum hjá sumum ríkisstjórnum til að hunsa eða komast í kringum reglur samningsins, allt frá því að reka burt eða hindra för flóttafólks og hælisleitenda við landamæri, til þess að leggja fram tillögur um að þvinga þau til þriðju landa án þess að setja fyrirvara vegna öryggis þeirra.
Nú eru liðin 70 ár, upp á dag, frá því að ríkin fengu Samning um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 til undirritunar. Grandi bendir á að samningurinn hafi í gegnum árin verið mikilvægur hluti alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og sé eins viðeigandi núna og þegar hann var fyrst ritaður og samþykktur.
„Textinn í samningnum er mjög skýr hvað varðar réttindi flóttafólks og á enn við í núverandi aðstæðum sem einkennast af fordæmalausum áskoranum og neyðarástandi, svo sem COVID-19 faraldurinn,“ sagði Grandi.
Bæði Samningurinn um réttarstöðu flóttafólks frá 1951 og hin nýlegri Alþjóðlega samþykkt um málefni flóttamanna kalla eftir alþjóðlegu samstarfi til að finna ýmsar lausnir fyrir flóttafólk.
Grandi lagði áherslu á þörfina á því að alþjóðasamfélagið standi vörð um grundvallarreglur fyrir vernd flóttamanna sem koma fram í samningnum, þar á meðal rétt einstaklings sem flýr ofsóknir til að vera ekki sendur aftur í hættu.
70 ára afmæli samnings um réttarstöðu flóttamanna kemur aðeins nokkrum mánuðum eftir að Flóttamannastofnunin sjálf fagnaði sjö áratugastarfsemi við vernd vegalausra einstaklinga um allan heim.
LOKIÐ
Bakgrunnsupplýsingar fyrir ritstjóra:
Smelltu hér til að lesa meira um Samninginn um réttarstöðu flóttamanna frá 1951.
Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar um alþjóðlega samþykkt um málefni flóttamanna.
Deila á Facebook Deila á Twitter