Reykjanesbær hefur boðið flóttamenn velkomna.
© Reykjanesbær
Reykjanesbær, þriðji stærsti bær landsins, er orðin fyrsti þéttbýlisstaðurinn á Íslandi til að taka þátt í #WithRefugees samstöðuverkefni flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
Bærinn á sér langa sögu þar sem flóttafólki hefur verið hjálpað að setjast að í samfélaginu og þeim veitt þjónusta um leið og þau eru studd og hvött til að skapa sjálfum sér og börnum hamingjusamt líf. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, er stoltur af því að taka þátt í samstöðuátaki #WithRefugees borga.
„Reykjanesbær fagnar fjölbreytileika í samfélaginu og gerir öllum borgurum kleift að skapa sér gott líf, svo hvert einasta barn geti tekið að fullu þátt í samfélaginu,“ útskýrir hann.
Fjórðungur af um það bil 20.000 íbúum bæjarins hefur erlent ríkisfang.
#WithRefugees samstöðuátak borga styður Alþjóðasamning um flóttamenn (e. Global Compact on Refugees) með því að virkja samfélagið allt. Herferðin býður borgum og sveitarfélögum alls staðar í heiminum sem vinna að því að stuðla að aðlögun og stuðningi við flóttafólk og við að leiða samfélög saman, að skrifa undir samstöðuyfirlýsingu. Reykjanesbær hóf þátttöku í átakinu í lok árs 2019.
Bærinn hefur í mörg ár unnið að því að tryggja aðlögun og stuðning flóttamanna innan samfélagsins. Árið 2004 var Reykjanesbær fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð, eftir samkomulag við Útlendingastofnun. Síðan 2014 hefur Reykjanesbær veitt umsækjendum lofsverðan stuðning með áherslu á fjölskyldur og viðkvæma hópa. Eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafa margir gert Reykjanesbæ að heimili sínu.
Henrik M. Nordentoft, fulltrúi flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu, býður Reykjanesbæ velkominn í sterkan hóp yfir 200 bæjarstjóra um allan heim.
„Opin samfélög eru lykilatriði í að tryggja að flóttamenn geti endurheimt líf sitt og lagt sitt af mörkum til hins nýja samfélags. Reykjanesbær hefur sýnt frábært fordæmi um hvernig hægt er að láta flóttafólki finnast það vera með og vera stutt af sinni nýju borg og landi og ég vona að aðrar íslenskar og norrænar borgir muni taka sér Reykjanesbæ til fyrirmyndar og hjálpi til við að breiða út þennan boðskap um samstöðu,“ segir hann.
Deila á Facebook Deila á Twitter