Þriggja daga hnattræn samkoma, sem miðar að því að breyta viðbrögðum heimsins við flóttamannaástandinu, hefst í dag í Genf í Sviss.
Alþjóðlegt málþing um flóttafólk,
16. – 18. desember í Genf
Fyrsta alþjóðlega málþingið um flóttafólk færir meðal annarra saman flóttamenn, þjóðarleiðtoga, leiðtoga SÞ, alþjóðlegar stofnanir, þróunarsamtök, leiðtoga úr viðskiptalífinu og fulltrúa félagasamtaka í Palais des Nations, höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í Genf.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er gestgjafi málþingsins ásamt Sviss, aðrir stjórnendur eru Kosta Ríka, Eþíópía, Þýskaland, Pakistan og Tyrkland. Markmið málþingsins er að kalla fram nýjar nálganir og langtímaskuldbindingar margra aðila til að aðstoða flóttafólk og þau samfélög sem þeir búa í. Í heiminum eru rúmlega 70 milljónir einstaklinga á flótta undan stríði, vopnuðum átökum og ofsóknum. Rúmlega 25 milljónir þeirra eru flóttafólk sem hafa flúið yfir alþjóðleg landamæri og geta ekki snúið aftur til síns heima.
„Við komum nú undan áratug af flótta, en á þeim tíma hefur fjöldi flóttafólks rokið upp“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
„Í þessari viku, á fyrsta alþjóðlega málþinginu um flóttafólk, næsta áratuginn verðum við að leggja áherslu á að byggja á því sem við höfum lært og tileinka okkur aðgerðir sem styðja við flóttafólk og þau lönd og samfélög sem hýsa þá. Þetta málþing er tækifæri til að sýna sameiginlega skuldbindingu okkar til hnattræns samkomulags um flóttafólk og standa á bakvið metnað heimsmarkmiðanna um að enginn verði skilinn eftir.“
Hnattrænt samkomulag um flóttafólk ryður brautina fyrir alla til að taka ábyrgð og hafa hlutverk, þar á meðal öll stig stjórnsýslu, einkageirinn, þróunarsamvinnu- og fjármálastofnanir, frjáls félagasamtök, trúarhópar og flóttafólk sjálft.
Þau framlög sem gerð verða á málþinginu verða væntanlega fjárhagsleg, tæknileg og efnisleg aðstoð, laga- og stefnubreytingar til að flóttafólk fái frekari aðild að samfélaginu, staðir til endurbúsetu og örugg heimkoma flóttafólks, sem hluti af lausnum.
„Við þurfum frekari aðstoð af þessum meiði,“ sagði Joelle Hangi frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, sem er einn styrktaraðila málþingsins. „Það eru nú þegar mörg dæmi um samvinnu – en þar sem fjöldi flóttafólks fer vaxandi þurfum við fleira fólk til að aðstoða okkur, fleiri stjórnvöld, fyrirtæki og samfélög til að deila þeirri ábyrgð að aðstoða flóttafólk. Það er þannig sem við endurheimtum frelsi okkar og sjálfstæði og endurgreiðum þeim sem hafa hjálpað okkur.“
Málþingið stendur yfir í þrjá daga í Genf og verða þar umræður, sérstakir viðburðir og skoðanaskipti. Einblínt verður á sex lykilsvæði: fyrirkomulag til að deila ábyrgð og byrði, menntun, störf og lífsviðurværi, orku og innviði og lausnir og verndunargetu. Það verða mörg tækifæri til að deila frumkvæði og góðum starfsvenjum sem sýna hvernig hnattrænt samkomulag um flóttafólk getur lagt sitt af mörkum.
Málþingið mun einnig skoða hvernig mannúðar- og þróunarviðbrögð geta stutt hvert annað. Sem merki um stigvaxandi mikilvægi einkageirans munu að auki rúmlega 100 fyrirtæki og stofnanir sækja málþingið og gefa fyrirheit um störf, fjármögnun og aðra aðstoð.
Finna má dagskrána og frekari upplýsingar um alþjóðlegt málþing um flóttafólk og tengda viðburði hér.
Myndir og myndbönd frá málþinginu eru á Refugees Media.
ENDIR
Deila á Facebook Deila á Twitter