Þetta er samantekt á ummælum Philippes Leclerc, svæðisstjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, á blaðamannafundinum í Palais des Nations í Genf á þriðjudag.
Eftir tveggja ára stríðsátök í Úkraínu, stórfellda eyðileggingu og stöðugar sprengju- og loftskeytaárásir um allt land eru örlög allra þeirra milljóna sem flosnað hafa upp enn óráðin.
Ekkert lát er á stríðsátökunum og aðstæður eru enn bágar í Úkraínu, þar sem 40 prósent landsmanna þarfnast mannúðaraðstoðar og verndar. Fyrir mörgum eru þetta ekki fyrstu kynnin af stríði og vergangi, enda eru í þessari viku líka 10 ár frá upphafi stríðsins í Austur-Úkraínu.
Nú hafa hátt í 6,5 milljónir flóttamanna frá Úkraínu leitað hælis víða um heim en um 3,7 milljónir eru vegalaus innanlands.
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum nýrrar rannsóknar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sagðist meirihluti bæði úkraínskra flóttamanna og þeirra sem voru vegalaus í eigin landi (65 og 72 prósent) vilja snúa aftur heim einhvern daginn. Þetta hlutfall hefur þó minnkað og fleiri segjast óviss vegna yfirstandandi stríðs.
Rannsókn Flóttamannastofnunarinnar, „Lives on Hold:Intentions and perspectives of refugees, refugee returnees and internally displaced peoples from Ukraine (Líf í bið: Viðhorf og sjónarhorn fólks á flótta, flóttafólks sem hefur snúið aftur og vegalauss fólks í eigin landi frá Úkraínu)“ er byggð á viðtölum sem tekin voru í janúar og febrúar á þessu ári við 9.900 úkraínska flóttamenn, vegalaust fólk í eigin landi og flóttafólk sem hefur snúið aftur, bæði innanlands og utan.
Vegalaust fólk sem rætt var við í könnuninni nefndi viðvarandi óöryggi í Úkraínu sem helstu fyrirstöðuna fyrir endurkomu þess en önnur áhyggjuefni voru meðal annars skortur á efnahagslegum tækifærum og húsnæði. Helsta forgangsverkefni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er að gera við hús í Úkraínu svo fólk geti búið áfram á heimilum sínum. Fram til þessa hefur verið gert við meira en 27.500 heimili. Af viðmælendum úr hópi flóttafólks sem snúið hafði aftur til Úkraínu greindi hins vegar meira en helmingur, eða 55 prósent, frá því að atvinnutækifærin hefðu reynst færri en vonast var til.
Áhyggjur vekur að töluverður hluti úkraínskra flóttamanna, um 59 prósent, gaf til kynna að þeir gætu neyðst til að snúa aftur heim, jafnvel þótt þeir kysu það síður vegna yfirstandandi stríðs, ef þeir héldu áfram að glíma við erfiðleika í móttökulöndum, einkum í tengslum við atvinnutækifæri og lagalega stöðu.
Fyrri skýrslur benda einnig til þess að flóttafólk með sérstakar þarfir og veikleika, þar á meðal eldra fólk og fólk með fatlanir, sé einnig að íhuga að snúa aftur, aðallega vegna þess að þau telja að aðrir valkostir standi ekki til boða.
Þessi flóttamannavandi einkennist af miklum aðskilnaði fjölskyldna, þar sem margir karlkyns fjölskyldumeðlimir verða eftir í Úkraínu sem oft hefur í för með sér áskoranir fyrir þau sem neyðast til að flýja land og þau sem verða eftir án stuðnings frá fjölskyldu sinni. Þessi skýrsla leiðir í ljós að fjölskyldusameining var helsti drifkrafturinn fyrir þá flóttamenn sem hafa snúið aftur til síns heima fyrir fullt og allt.
Fleiri flóttamenn fara nú í stuttar heimsóknir til Úkraínu, eða um 50% samanborið við 39% á síðasta ári, aðallega til að heimsækja ættingja en einnig til að skoða ástand eigna. Eins og fram kemur í afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til endurkomu af frjálsum vilja til Úkraínu geta slíkar heimsóknir á endanum auðveldað upplýstar ákvarðanir um endurkomu til lengri tíma þegar aðstæður leyfa.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetur móttökuríki til að viðhalda sveigjanlegri nálgun á skammtímaheimsóknum flóttafólks til Úkraínu þannig að heimsóknir sem vara skemur en þrjá mánuði hafi ekki áhrif á lagalega stöðu og réttindi flóttafólks í móttökuríkinu. Tryggja þarf vernd og þarfir flóttafólks þar til það getur af fúsum og frjálsum vilja snúið aftur heim og notið þar öryggis og mannlegrar reisnar.
Á meðan á stríðinu stendur þurfa flóttamenn, vegalaust fólk í eigin landi og fólk sem hefur hlotið skaða af stríðsátökum og býr enn á framlínusvæðum á brýnni aðstoð að halda. Þó fólk sé enn hart af sér og endurreisnarstarf sé vel á veg komið á mörgum svæðum verður að halda stuðningnum áfram til að stefna ekki vernd og viðnámi Úkraínufólks í hættu.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óskar eftir 993,3 milljónum Bandaríkjadala – 599 milljónum Bandaríkjadala til nota innan Úkraínu og afganginum til að styðja við flóttafólk í móttökulöndum. Aðeins 13 prósent af aðgerðum í þágu Úkraínu eru nú fjármagnaðar. Við gætum neyðst til að skera niður nauðsynlega starfsemi í Úkraínu og nálægum löndum nema fjármagn berist tímanlega.
Ekki má gleyma íbúum Úkraínu sem búa við afleiðingar þessa stríðs á hverjum degi. Við höfum orðið vör við gríðarlega samstöðu með og stuðning við Úkraínu og þessi bráðnauðsynlegi stuðningur má ekki hætta núna.
LÝKUR
Í síðasta mánuði óskuðu Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar í sameiningu eftir 4,2 milljarða Bandaríkjadala stuðningi við stríðshrjáð samfélög í Úkraínu og úkraínska flóttamenn og móttökusamfélögin á svæðinu fyrir árið 2024. Alls er stefnt að því að styðja um 10,8 milljónir manna í Úkraínu og nágrenni.
Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) samræmir viðbrögðin innan Úkraínu. Fyrir árið 2024 er farið fram á 3,1 milljarð Bandaríkjadala fyrir þessa mannúðarviðbragðsáætlun, sem snertir 8,5 milljónir manna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) samræmir svæðisbundnu viðbragðsáætlunina fyrir flóttafólk, sem snertir 2,3 milljónir flóttamanna og móttökusamfélög og þarfnast 1,1 milljarða Bandaríkjadala framlags.
Skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, „Lives on hold: Intentions and Perspectives of Refugees, Refugee Returnees and IDPs from Ukraine #5 Summary Findings“ (Líf í bið: Viðhorf og sjónarhorn fólks á flótta, flóttafólks sem hefur snúið aftur og vegalauss fólks í eigin landi frá Úkraínu nr. 5 – samantekt á niðurstöðum) er að finna hér.
Smellið hér til að fá frekari tölfræðiupplýsingar um úkraínskt flóttafólk á Íslandi.
Deila á Facebook Deila á Twitter