Fjölgun fólks á flótta á síðasta ári skýrist af stríðinu í Úkraínu og endurskoðuðu mati á fjölda afganskra flóttamanna, auk nýrra átaka sem blossað hafa upp, sérstaklega í Súdan. Allt þetta veldur þvi að heildarfjöldinn nálgast 110 milljónir.
Allsherjarstríð í Úkraínu, samhliða átökum annars staðar og umróts af völdum loftslagsbreytinga, hafa haft í för með sér að fleira fólk en nokkru sinni hraktist frá heimilum sínum á síðasta ári. Þetta hefur aukið á þörfina fyrir tafarlausar, sameiginlegar aðgerðir til að draga úr orsökum og áhrifum landflótta, að því er segir í tilkynningu UNHCR, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Ársskýrsl Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Almenn þróun um þvingaðan fólksflótta (Global Trends in Forced Displacement) 2022, kemur út í dag. Þar segir að í lok árs 2022 hafi fjöldi fólks sem stökkt hefur verið á flótta vegna stríðs, ofsókna, ofbeldis og mannréttindabrota náð metfjölda eða 108,4 milljónir. Þetta er 19,1 milljón fleiri en árið áður, sem var mesta fjölgun sem mælst hefur.
Fátt bendir til að það hægi á fjölgun fólks sem neyðst hefur til að flýja heimili sín á heimsvísu árið 2023. Á þessu ári hafa þannig brotist út átök í Súdan hrundu af stað nýjum flóttamannastraumi með þeim afleiðingum að áætlað er að heildarfjöldinn í heiminum hafi náð 110 milljónum í maí-mánuði.
„Þessar tölur sýna okkur að sumir eru allt of fljótir að grípa til vopna og allt of seinir að leita lausna. Afleiðingin er eyðilegging, landflótti og hörmungar fyrir allar þær milljónir manna sem stökkt er á flótta,“ sagði Filippo Grandi flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Af þeim sem hröktust á flótta í heiminum voru 35,2 landflóttamenn, fólk sem flúði yfir alþjóðleg landamæri í leit að öryggi, en meirihluti – 58 prósent, sem eru 62,5 milljónir manna – voru á vergangi í heimalöndum sínum vegna átaka og ofbeldis.
Stríðið í Úkraínu var helsta orsök fólksflótta árið 2022. Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu jókst úr 27.300 í lok árs 2021 í 5,7 milljónir í lok árs 2022. Leita þarf aftur til síðari heimsstyrjaldarinnar til að finna dæmi um að svo margir leggist á flótta svo hratt sem raun ber vitni. Tölur um fjölda flóttamanna frá Afganistan voru verulega hærri í lok árs 2022 vegna endurskoðaðs mats á fjölda Afgana, sem leitað hafa hælis í Íran, en margir þeirra höfðu komið þangað á fyrri árum.
Á sama hátt endurspeglaði skýrslan hærri tölur í Kólumbíu og Perú um fjölda Venesúelabúa, sem er aðallega flokkaðir sem „annað fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar,“ sem hýst er í þessum löndum.
Tölurnar staðfestu einnig að hvort heldur sem miðað er við efnahagslegan styrk eða íbúafjölda, eru það enn sem fyrr lág- og millitekjulönd heimsins – ekki auðug ríki – sem hýsa flest fólk á flótta. 46 minnst þróuðu löndin eru með minna en 1,3 prósent af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, en samt hýstu þau meira en 20 prósent allra flóttamanna. Illa gekk að fjármagna viðbrögð við hinum mikla fjölda uppflosnaðs fólks og stuðning við gistiríki á síðasta ári og sama gildir um 2023, þótt þarfir hafi að sama skapi aukist.
„Fólk um allan heim heldur áfram að sýna flóttamönnum einstaka gestrisni þar sem það skýtur skjólshúsi yfir bágstadda og veitir þeim hjálp,“ bætti Grandi við, „en þörf er á mun meiri alþjóðlegum stuðningi og réttlátari ábyrgðarskiptingu, sérstaklega með tilliti til þeirra ríkja sem hýsa flest flóttafólk.“
„Umfram allt þarf að gera miklu meira til að binda enda á átök og ryðja úr vegi hindrunum þannig að flóttafólk eigi raunhæfan kost á að snúa heim sjálfviljugt, á öruggan hátt og með reisn.“
Þrátt fyrir að heildartala flóttamanna hafi haldið áfram að hækka, sýndi Global Trends skýrslan einnig að þeir sem neyddir eru til að flýja eru ekki dæmdir í æfilanga útlegð, heldur geta þeir farið heim, sjálfviljugir og með öruggum hætti. Árið 2022 sneru yfir 339.000 flóttamenn aftur til 38 landa, og þó það sú tala hafi verið lægri en árið áður sneru töluvert margir sjálfviljugir heim til Suður-Súdan, Sýrlands, Kamerún og Fílabeinsstrandarinnar. Á sama tíma sneru 5,7 milljónir manna á vergangi innanlands árið 2022 aftur til sinna heimahaga, einkum innan Eþíópíu, Mjanmar, Sýrlands, Mósambík og Lýðveldisins Kongó.
Í lok árs 2022 var áætlað að 4,4 milljónir manna um allan heim væru ríkisfangslausir eða af óskilgreindu þjóðerni, 2 prósentum fleiri en í lok árs 2021.
Skýrslan um Global Trends var kynnt hálfu ári fyrir Alþjóða flóttamannavettvanginn (Global Refugee Forum), sem er þýðingarmikil ráðstefna í Genf þar sem ýmsir fagaðilar leiða saman hesta sína í leit að nýjum lausnum og staðfesta samstöðu með fólki á flótta og móttökuríkjum þeirra.
Deila á Facebook Deila á Twitter